top of page
Search

Notar þú beisli á hundinn þinn?


Mynd: https://www.pdmrx.top/ProductDetail.aspx?iid=184191463&pr=42.99

Undanfarin ár hefur notkun beisla fyrir hunda rutt sér rúm hér á landi sem annars staðar í heiminum. Beisli geta verið frábær lausn fyrir bæði hunda og eigendur þeirra bæði þegar um er að ræða venjulega heimilishunda sem eiga það til að toga mikið eða t.d. vinnuhunda eins og sleðahunda eða hunda sem hjóla mikið með eigendum sínum.


Það er mikilvægt að hugsa vel út í það hvernig tauma, ólar og beisli maður velur fyrir hundinn sinn. Þegar ég byrjaði í hundaþjálfaranáminu og eftir að ég fór að vinna mikið með hundum og eigendum þeirra áttaði ég mig á mikilvægi þess að velja þessi hjálpartæki vel, sérstaklega beisli. Í einfeldni minni hélt ég að beisli sem seldar væru hér á landi stæðust fyllstu öryggiskröfur þar með talið á heilsufar hundanna á sama hátt og MAST (matvælastofnun) hefur bannað ákveðnar tegundir af taumum. Það er ekki svo og í dag fæ ég oft á dag illt í hjartað við það að horfa á hunda klædda ákveðnum tegundum af beislum. Af hverju skyldi það vera?


Ástæðan er einföld! Sumar tegundir af beislum hefta náttúrlega hreyfigetu hundanna og geta valdið þeim miklu tjóni, sérstaklega til lengri tíma. Þannig gerir beislið það að verkum að hundurinn nær ekki að rétta nægjanlega vel úr axlarliðum og heftir hreyfigetu, sérstaklega við hlaup og stökk, þar sem beislið liggur þvert yfir axlir hundsins. Það sama á einnig við um göngur en þar er áreynslan þó ekki eins mikil og við t.d. hlaup en engu að síður geta beislin valdið óþægindum og líkamlegum kvillum hjá hundinum ef þau eru ekki rétt valin. Við getum í raun ímyndað okkur að við sjálf séum sett í spennitreyjur eða band þvert yfir mjaðmir og okkur sagt að ganga langar leiðar, hlaupa eða stökkva eða nota hendurnar.


Hér fyrir neðan sjáum við tvær myndir af hundum sem eru í beisli sem hefur band yfir axlarliði:

Mynd fengin á https://www.facebook.com/Impulsedogtraining
Mynd fengin á https://www.facebook.com/Impulsedogtraining

Þið sjáið hvernig efra bandið liggur bein yfir bringu hundanna og ofan á axlarliðum þeirra og hefta eðlilega notkun axlarliðarins með beinum áhrifum á hryggjarliði og vöðva. Sem dæmi um beisli sem hafa þessa eiginleika get ég nefnd Julius K9 beisli sem eru mjög vinsæl hér á landi.


Beisli sem eru Y laga og liggja framan á bringu hundsins og niður undir lappirnar er í lagi að nota. Þannig er axlarliðurinn fullkomlega óheftur og hreyfigeta hundsins fullkomlega eðlileg. Á myndunum hér fyrir neðan sjáið þið muninn og hvernig beislið liggur að bringu hundsins án þess að koma á nokkurn hátt við axlarliðina.


Mynd fengin á https://www.facebook.com/Impulsedogtraining
Mynd fengin á https://www.facebook.com/Impulsedogtraining

Ef þú kýst að nota beisli á hundinn dags daglega, við hlaup eða aðrar íþróttaiðkun með hundinum þínum mæli ég með því að þú veljir Y-laga beisli eins og t.d. Non Stop eða önnur sambærileg beisli. Þannig stuðlar þú að heilbrigði hundsins þíns og kemur í veg fyrir óþarfa vanlíðan og heilsukvillum hjá honum. Ég mæli jafnframt með því hafa hundinn með í för þegar beislið er keypt þar sem það er jafnframt mikilvægt að það passi vel og sé ekki of lítið en starfsmenn búðanna geta einnig aðstoðað við að velja rétta stærð.

1,168 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page