top of page
Search

Af hverju er mikilvægt að umhverfisvenja hvolpinn/hundinn þinn vel?


Umhverfisþjálfun er það þegar við kennum hundinum okkar að vera hluti af umhverfinu þannig að honum líði vel. Í því fellst að hundurinn venjist og líði vel með að hitta mismunandi fólk, upplifa mismunandi undirlag, lykt, hljóð, önnur dýr og mismunandi tegundir hunda.


Mikilvægasta tímabilið í lífi hunda er 6-16 vikna. Á þessu tímabili, og í raun bara alltaf, er mjög mikilvægt að umhverfisþjálfa hundinn vel því eftir16 vikna verður umhverfisþjálfun erfiðari, ekki ómöguleg heldur erfiðari.


Bara það að taka hundinn þinn út í göngutúr getur verið góð umhverfisþjálfun fyrir hann og hjálpað honum að verða öruggari með sjálfan sig, heiminn og fólkið í kringum okkur. Ef við erum dugleg að sýna hundunum okkar nýja hluti og pössum okkur á því að festast ekki í sama venjunum náum við að viðhalda umhverfisþjálfuninni því það er auðvelt að tapa niður því sem búið er að kenna. Þannig er mikilvægt að fara ekki alltaf með hundinn á sama svæðið að leika, sama hringinn í göngutúrunum eða hitta alltaf sama fólkið og sömu hundana.


Það er fullkomlega eðlilegt að hundurinn, sérstaklega litlir hvolpar, verði hræddir í nýjum aðstæðum. Þá er mikilvægt að við, mannfólkið, höldum ró okkar og gerum ekki mikið úr þessum ótta hans. Ekki falla í þann pitt að vorkenna hundinum, klappa honum og taka hann upp og þannig ýta undir óttan heldur hjálpum við hundinum að venjast aðstæðunum á jákvæðan hátt eða förum með hann úr aðstæðunum. Það má alltaf prófa aftur og í raun mikilvægt að gera það.


Það er mjög mikilvægt að við gætum þess að ýta ekki hundinum út í aðstæður sem hann er óttaslegin við með því að toga hann eða þvinga hann til að vera í aðstæðum sem honum líður illa í. Þannig búum við til vandamál sem erfitt getur verið að vinda ofan af í framtíðinni.


Það er ýmislegt sem er gott að hafa í huga þegar við erum að umhverfisþjálfa hunda, sérstaklega hvolpa. Gott er að setja sér markmið kynna hvolpinum ákveðna hluti strax frá því að hann kemur á heimilið.


Kynna ætti hvolpar/hunda fyrir:

- Mismunandi fólki: Konum, körlum, börnum, gömlu fólki, hvítu fólki, svörtu fólki o.s.frv.

- Mismunandi fatnaði: Gleraugum, sólgleraugum, húfum, höttum, búningum, möskum, hettupeysum, o.s.frv.

-Mismunandi áferðir: hart, mjúkt, slímugt o.s.frv.

- Mismunandi undirlagi: Grasi, mold, sandi, möl, mosa, vatni, malbiki, hellum, o.s.frv.

- Algengustu hlutum í nærumhverfi: Ljósastaurum, umferðarmerkjum, hjólum, mótorhjólum, vinnuvélum, bílum, hjólabrettum, rafmagnshjólum, bekkjum, grindverkum o.s.frv.

- Öðrum dýrum: hestum, köttum, fuglum og mismunandi tegundum af hundum.


Notum hugmyndaflugið þegar við kennum hvolpinum/hundinum okkar á umhverfið og pössum okkur að halda líka gleðinni og hafa gamna að upplifa heiminn með hundunum okkar. Þannig gerum við heim hundsins minna ógvekjandi og drögum úr líkum á vandamálum síðar meir.

413 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page