top of page
Search

Af hverju elska ég NoseWork?

Hundafjör

Updated: Feb 20, 2023


Það er fátt skemmtilegra en að eyða tíma með hundinum sínum í skemmtilegri þjálfun eða hundasporti. Hér á Íslandi hefur NoseWork verið í miklum vexti sem þjálfun, afþreying og keppnisíþrótt. En hvað er NoseWork?


NoseWork kom fyrst á sjónarsviðið árið 2006 í Bandaríkjunum og hefur verið að færa út kvíarnar undanfarin ár og er nú orðið vinsæl íþrótt um allan heim. Hér á Íslandi byrjaði NoseWork fyrir alvöru árið 2017 og núna undanfarna mánuði hefur íþróttin verið í örum vexti. NoseWork er íþrótt sem fær innblástur sinn frá fíkniefna- og sprengjuefnaleit með hunda og annarri leitarvinnu þar sem meðfætt lyktarskyn hundsins er virkjað til þess að leita af ákveðinni lykt. Saman myndar hundur og stjórnandi hans teymi þar sem hundurinn leitar af lyktinni og stjórnandinn lærir að þekkja merkingu hundsins.


Með NoseWork fær hundurinn andlega útrás með því að nota nefið og er þessi vinna virilega góð leið til þess að hafa gaman með hundinum þínum, byggja upp sjálfstrausts hans og eyða andlegri og líkamlegri orku. Í NoseWork fær hundurinn mikla útrás á stuttum tíma og jafnast það að taka stutta leit með hundinum þínum á við þá útrás sem hann fær við langan göngutúr.

Eins og fyrr segir er hundurinn þjálfaður til þess að finna ákveðna lykt sem falin er í ólíku umhverfi, innan- og utanhúss. Í NoseWork eru fjögur móment sem leitað er í: íláta-, innanhús-, utanhúss- og farartækjaleit. Í upphafi er einungis unnið með eina lykt, Eukalyptus, en þegar teymið er komið lengra í íþróttinni er fleirri lyktum bætt við leitirnar, þ.e. lárviðarlaufi og lavender. Þá er jafnframt settar inn svokallaðar truflandi lyktir, þ.e. lyktir sem hundurinn á ekki að merkja á í leit. Erfileikastig NoseWork eru þrjú, NoseWork 1, 2 og 3 en eftir því sem sem ofar er farið verða leitirnar flóknari.


Það frábæra við NoseWork er að þetta er ódýr íþrótt sem krefst ekki mikillar yfirbyggingar né líkamlegra erfiðleika, hvorki fyrir hund né stjórnanda. Grunnhugsunin í NoseWork er að þetta sé íþrótt fyrir alla, unga sem aldna og einstaklinga sem búa við hreyfiskerðingar eða fötlun. NoseWork er einnig fyrir hunda af öllum stærðum, tegundum og aldri, ekki bara öflugum hundategundum sem þekktar eru fyrir hæfileika sína í leit. Í raun hentar NoseWork einstaklega vel fyrir hunda sem eru stressaðir, viðkvæmir eða hafa ekki líkamlega getu til mikillar hreyfingar vegna t.d. aldurs eða sjúkdóma. Hægt er að stunda NoseWork hvar og hvenær sem er, innan- og utanhúss, í vondu veðri og góðu svo framarlega sem þú átt glas með þeirri lykt sem þú ert að æfa hundinn á.

Reglulega eru haldnar keppnir á vegum íslenska NoseWork klúbbsins þar sem keppt er í mismunandi mómentum og hefur fjölda keppna og keppendum fjölgað mikið síðustu mánuði. Til þess að geta tekið þátt í keppnum hér á landi þarf teymið að hafa staðist lyktarpróf sem haldin eru af viðurkenndum NoseWork dómurum.


Það besta við NoseWork er samt aðalatriðið: að hafa gaman! Enginn þarf að keppa nema þeir sem það vilja en NoseWork er klárlega skemmtilegasta hundaíþróttin að mínu mati.


Hundafjör bíður uppá námskeið í NoseWork ef þú hefur áhuga á að prófa. Hafðu samband á netfangið hundafjor@gmail.com eða Facebook síðu Hundafjörs ef þú hefur áhuga á að kynna þér NoseWork frekar að villt koma á námskeið.








Heimildir:

Fred Helfers. (2017). The Nose Work Handler. Fred Helfers.



NoseWork reglur. Íslenski NoseWork klúbburinn. 2022.


Sturla Þóðarson. (2017). Þefskyn hunda. Sámur 47. árg. (2. tbl.), bls. 10-11.

 
 
 

Comments


bottom of page